Suzuki aðferðin

Hvað er Suzuki uppeldisaðferðin

 

Öll börn geta lært ef umhverfið er hvetjandi

Upphafsmaður aðferðarinnar var japanski fiðlukennarinn Shinichi Suzuki sem fæddist árið 1898 og lést 1998.

Fregnir af frábærum árangri hans við fiðlukennslu barst fyrst til Bandaríkjanna um 1960.

Suzukikennsla hófst fyrir alvöru á Íslandi um og upp úr 1980. 

Suzukiaðferðin byggir á þeirri grunnhugmynd að öll börn geti lært tónlist, rétt eins og þau geta öll lært móðurmál sitt. Það sem til þarf er tónlist í umhverfinu, góður kennari og virk þátttaka og uppörvun foreldra. 

Helstu einkenni aðferðarinnar eru: 

  • Börnin geta byrjað ung eða um þriggja til fimm ára.
  • Börnin læra eftir eyra með stöðugri hlustun á námsefnið
  • Nótnalestur bætist við síðar
  • Foreldrar fylgja með í alla tíma og æfa með börnunum heima
  • Námið felst bæði í einkatímum og hóptímum
  • Upprifjun er snar þáttur í náminu  
  • Ýmislegt fleira má nefna, t.d. jákvætt hugarfar og hvatning, börnin eru látin koma fram á tónleikum frá því fyrsta, foreldrafræðsla í byrjun, einbeiting að einu atriði í einu, leikur og gamansemi, herminám fremur en útskýringar.

 

Hver er Shinichi Suzuki?

Japaninn Shinichi Suzuki fæddist árið 1898. Faðir hans rak fiðluverksmiðju í Japan. Sinichi kynntist þó ekki vestrænum tónlistarheimi fyrr en hann var 17 ára gamall og heyrði í þýskum fiðluleikara af hljómplötu en plötuspilarar höfðu þá nýlega borist til Japans. Svo heillaður var hann af tóni fiðluleikarans og fiðlunnar að hann einsetti sér að ná tökum á hljóðfærinu.

Hann nam meðal annars í Þýskalandi í átta ár frá tvítugsaldri hjá prófessor Klingel í Berlín. Hann flutti aftur til Japans að námi loknu ásamt þýskri eiginkonu sinni og hóf að kenna í Tónlistarháskólanum í Tokyo.

Dag einn kom vinur hans með 4 ára son sinn og bað Suzuki um að kenna honum á fiðlu. Suzuki fannst hann vera heldur ungur en velti því fyrir sér hvernig hann gæti mögulega kennt svo ungu barni. Þá laust niður þessari hugmynd Suzukis að fyrst öll börn gætu lært móðurmál sitt, hversu flókið sem það væri, ættu allir að geta lært að spila á flókin hljóðfæri á svipaðan hátt.

Þetta var upphafið að þróunarvinnu sem hann vann að næstu árin og hann náði undraverðum árangri sem vakið hefur athygli víða um heim.Hann kenndi fiðlukennurum kennsluaðferð sína og þannig hefur aðferð hans breiðst út um allan heim. Sjálfur kallaði hann aðferð sína móðurmálsaðferðina.

Á döfinni

Sjáðu hvað er næst á döfinni hjá okkur

  • Sumarnámskeið ÍSS 2019

  • Spunanámskeið strengir með Oriol

  • Mimi Zweig hóptími